Samminn

30.11.05

Spennó

Framtíð Leifsstöðvar, eða öllu heldur framtíðarskipulag umferðar- og bílastæðakerfis, eru á mínum herðum þessa dagana. Á föstudaginn kynnum við stjórninni tillögur okkar og ég sit sveittur við þessa dagana að teikna upp skema og sérstaklega þá sem er meira og minna runnin undan mínum rifjum ... og er langbest auðvitað! Nú er bara spurningin hvort hún verði seld ... to be continued!

29.11.05

Jeppaferð og visitasía

Jæja, þá er sérdeilis hressandi útilegu lokið. Ferðalagið með Hvíta Satan upp á fjöll sveik engan. Við vorum rosalega heppnir með veðrið (fyrir utan hitastigið e.t.v.) þar sem það var tiltölulega heiðskýrt allan tímann. Á föstudagskvöldið var stjörnubjart og ekkert tunglsljós, þannig að maður gat testað gömlu stjörnumerkjaviskuna ... sem var nú aldrei neitt gríðarleg, en maður gat þó talið upp helstu stjörnunar í Oríon t.d. og einnig fann maður gamla kunningja í Kassíópeiu.

Harkið og baslið var aldrei langt undan, eins og sæmir alvöru fjallaferð. Aggi gerði heiðarlega tilraun til að slétta úr vænum stein með framdekkinu, en varð að játa sig sigraðan og við eyddum drjúgum tíma einir í myrkrinu á laugardagskvöldið að taka framdekkið undan og berja á beygluðu felgunni þannig að við gætum blásið í aftur.

Skálarnir í Nýjadal buðu upp á þriggja stjörnu gistingu, með innihitastigi upp á sirka núllgráður og biluðum ofnum. Furðulegt að það sé engin einangrun í þessum skálum. Við Angus vorum reyndar svo heppnir að vera í heitari skálanum og enduðum ekki á því að kvefast, eins og sumir gerðu um helgina. Við vorum í skála með hressu liði, og sérstaklega einum wisecrack 11 ára strák sem hélt því fram allt kvöldið að ég væri ótýndur sirkusþjófur eftir að hafa sigrað hann í Olsen Olsen nokkrum sinnum :-) ... auðvitað leyfði ég honum aldrei að vinna, þarf að herða þetta lið! :-) Náði samt aldrei að sparka hann almennilega í afturendann fyrir þetta komment.

Núna hef ég komið upp á alla helstu jökla landsins! Og það á tveimur árum eða svo. Þrefalt húrra fyrir Agga, Pattanum, óseðjandi fjalladellu og lítill áhuga kærustu Agga á sömu hlutum!

Rétt í þessu var mamma með smá visitasíu hér á Baldrinum. Ég fékk að venju frekar slaka einkunn fyrir þrif, en plús fyrir þessa einstaklega menningarlegu seríu sem er komin á svalahandriðið norðanmegin! Jólin koma hjá Sammanum! Fylgist með ...

24.11.05

Kaos

Eftir því sem á líður geri ég mér betur grein fyrir því að ég er hrifinn af ákveðnu kaos eða óreiðu hluta. Ekki endilega óskipulagðri óreiðu, heldur einmitt skipulagðri óreiðu. Það getur verið að þetta tengist þörfinni fyrir að krydda tilveruna, að maður sé alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og sjá hluti í nýju samhengi. En jafnframt verður að vera hæfileg regla á hlutunum. Þeir þurfa jafnframt að ganga upp og virka.

Þetta er sennilega ein af ástæðunum fyrir því hversu vel ég kann við mig í miðbænum. Ef eitthvað er þá er hann skipulögð óreiða holdi klædd, og í stórum skala. Það er ákveðin regla á hlutunum en samt byggir hún á ákveðinni óreiðu sem gerir það að verkum að umhverfið býður alltaf upp á nýja og nýja upplifun. Sérstaklega þegar maður röltir um hverfið á tveimur jafnfljótum og tekur sér tíma til að líta til hægri og vinstri af og til, inn í húsagarða og port. Sum eru full af órækt, gömlum dekkjum og almennum draslaragangni, önnur eru nýlögð dýrum hellum frá Steinsteypu ehf. og jafnvel fylgir lítill gosbrunnur með. Stundum skaga hús út í götuna og stundum inn í hana. Stundum má finna timburhús með steyptri viðbyggingu og öfugt. Alls staðar má finna tré og runna af öllum tegundum, og tilraunir manna til að apa eftir ákveðnum tískustraumum í arkitektúr og hönnun alla síðustu öld og jafnvel lengur aftur í tímann. Og miðbærinn virkar, svo mikið er víst. Sérstaklega "for de lidt tossede" ... eins og mig :-)

óver end át

Jeppaferð um helgina

Það hlaut að koma að því að Aggi hóaði á hinn staðfasta og síviljuga kóara sinn og plataði hann með í jeppaferð um helgina. Helgin verður því undirlögð jeppabrölti uppi á hálendinu og það er hreint ekki verri aðferð til að eyða helgini en hver önnur. Og talsvert meira spennandi en næturbrölt í miðbænum, þótt það geti einnig verið gríðarlega hressandi við vissar aðstæður...

Ferðinni er heitið upp á Sprengisand á föstudaginn, og við ætlum að reyna að leggja af stað rétt upp úr hádegi. Þetta er hluti af nýliðaferð 4x4, þótt Aggi segi að fæstir að þeim sem eru búnir að skrá sig séu nýliðar í bransanum. Á meðal jeppa í ferðinni verður græna gamla Hummer monsterið á 44" dekkjum sem maður sér af og til veltast um í borginni. Ógurlegt tröll, og frekar undarlegur eigandi ef marka má reynslu Agga...

Á laugardeginum er planið að reyna að fara upp á Vatnajökul, og upp að Grímsvötnum. Magnað ef af verður. Ég er nú þegar búinn að fara upp á Langjökul, Hofsjökul, Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul með Hvíta Satan, en drotting jöklanna er enn eftir. Markmiðið er auðvitað að brölta sem mest og helst festa jeppann duglega nokkrum sinnum. Það er engin ferð án þess að menn séu hálfan tíma að kippa öðrum af stað með tóg, nú eða sprengja dekk á felgur. Það hefur nú reyndar ekki komið fyrir nema einu sinni áður í ferð þar sem ég fékk að þvælast með, en þetta er magnað trikk...

Ætti maður að kaupa sér jeppa sjálfur? Því er ekki að neita að þvælingurinn með Agga kveikir í manni smá þörf að hella sér út í bransann. En æ nei. Maður hefur í fyrsta lagi ekki efni á svona brölti af eigin rammleik og síðan fullnægir bröltið með Agga alveg ævintýraþörfinni ... í bili a.m.k.

21.11.05

Um froðu

Ég bið minn góða vin Andra afsökunar á því að bendla hann við froðu og plebbamennsku, enda fáir sem ég þekki sem eru eins langt frá því og hægt er. Enginn er eins ólíklegur að smitast af einhvers konar gervimennsku og hann. Lærdómsreynsla af þessu netblaðri virðist ekki síst vera sú að það er alltaf erfitt að láta meinfýsni og kaldhæðni skína í gegn, og er sennilega ekki vænlegt að halda því við. Endilega skammið mig ef ykkur finnst ég vera að hrauna upp á bak hérna ...

Anyways. Lord of War er ekki slæm ræma. Hún er ekkert stórkostleg ræma heldur, en hún er mjög vel unnin og vekur mann sannarlega til meðvitundar um þann viðbjóð sem viðgengst í hinum stríðshrjáða hluta heimsins. Minnir mann á góðan punkt sem Chris Rock kom með um kúlur og sagði að það myndi sennilega leysa mörg vandamál heimsins ef ein byssukúla kostaði 1000 dollara...

19.11.05

Laugar

Ætlaði að halda upp á vel heppnaða viku í ræktinni með því að kíkja á stepmasterinn í Laugum í 20 mínútur eftir að hafa verið í mat á Markarflötinni. Neeeeema hvað að þá er búið að loka tækjasalnum ... og klukkan er rétt hálf tíu. Ekki það að ég hafi orðið neitt sérstaklega pirraður, enda vissi ég að þeir lokuðu snemma. En comon, ef Laugar ætla sér að markaðssetja sig sem heimsklassa fitness og spa staður, og ekki síst ef þeir ætla að sér að byggja heilsuhótel til að styðja við það, þá verða þeir að lengja opnunartímann umtalsvert, og jafnvel taka upp sólarhringsopnunina aftur. Alþjóðlegar kröfur eru orðnar þannig að menn geta ekki boðið upp á annað ef þeir ætla að vera samkeppnishæfir.

Og síðan mætti starfsfólkið vera pínku meira brosandi ... svona rétt eins og Bylgjan :D

óverendát uhu uhu

18.11.05

Leiðinlegu týpurnar

Ég veit að ég á ekki að vera að velta mér upp úr þessu, en í mötuneytinu í gær velti ég fyrir mér þessum ákveðnu týpum sem eru svo einstaklega óheppnar að misskilja sjálfar sig á svo margan hátt. Það eru nokkrar slíkar á stofunni og mér finnst gaman að pæla í þeim. Það kannast eflaust nánast allir við svona týpur. Þetta eru týpurnar sem finnast þær sjálfar vera svo rosalega fyndnar og sniðugar en geta ómögulega greint feedbackið frá sínu umhverfi þannig að þær séu að fá réttu skilaboðin til baka. Alltaf að koma með einhver "sniðug" komment sem eru alls ekki sniðug og stundum jafnvel móðgandi gagnvart einhverjum, týpurnar sem grípa fram í á fundum til að koma að einhverju sniðugu kommenti sem öllum finnst í raun bara truflandi og sá eini sem flissar er hann sjálfur. Og þær hætta aldrei. Í rauninni verður allt einfaldlega frekar pirrandi sem kemur frá þeim og maður verður að hafa sig allan við að brosa og vera alúðlegur á meðan litli púkinn á öxlinni manns hoppar og reitir hár sitt og skegg. Stundum tekst manni það ekki alveg, en stundum er manni einfaldlega alveg sama.

Þetta rifjar upp gamla góða tíma þegar 15 ára Andri Arnaldsson, sem hafði ekki sama tolerans, stóð, ásamt fleiri góðum félögum í mötuneytinu í Garðaskóla og sá sér til hrellingar hvar Óskar feiti arkar skælbrosandi í áttina að okkur. Andri, sem sá hvað í stefndi, var ekkert að tvínóna við það sagði hátt "drullaðu þér í burtu Skari", sem snéri sér við á punktinum og labbaði í burtu. Ekki nóg með það, heldur þá sparkaði Andri duglega í rassinn á honum rétt eftir að hann var búinn að snúa sér við. Þetta er eitt fyndnasta mómentið sem ég man eftir úr gaggó, en maður vorkenndi greyið drengnum svo sem, bæði þá og nú. Andri hefur nú aldrei verið þekktur fyrir að fara mjúkt í hlutina, en hver veit hvað dvölin í Seattle geri kappanum. Hann hefur nú hægt og sígandi verið að breytast í skælbrosandi ameríska froðu þarna úti.

16.11.05

Kvikmyndahátíð

Svei, var að komast að því í dag að októberbíófestið var að enda í gær og ég hef ekki farið á eina einustu sýningu. Nafnið á hátíðinni hefði e.t.v. átt að gefa manni smá hint um að drífa sig strax í október ... svona getur maður nú verið rænulaus.

Til allrar lukku var hátíðin framlengd um nokkra daga. Ætla að grípa tækifærið og skella mér á 10 sýningu á eftir ... þrátt fyrir að hressleikastuðullinn sé ekki gríðarlegur. Svona upp á 5,5 - 6.

15.11.05

Perulagadalurinn kvaddur endanlega

Hah! Búinn að fjárfesta í Myoplex Lite, glútamíni og BetaLean fyrir 14000 spaða. Spinnertækið virkjað í smá morgunspinn fyrir sturtu alla morgna, lyftingar og stepmaster 3svar í viku í Laugum og síðast en ekki síst fitumæling hjá Davíð Stefáni á tveggja vikna fresti fram að jólum! Nú verður Perulagadalurinn kvaddur í eitt skipti fyrir öll!

... ekki það að ég ætli að fara að breyta þessu í eitthvað fitubollublogg, síður en svo. En bara svo þið farið ekki að ota að mér einhverjum óþverra og treilerparkfæði nema e.t.v. rétt á sunnudögum.

Jæja, hvað á maður svo að borða í kvöld?




... hvernig er það, var ekki Megavika á Dominos?!

13.11.05

Hytteturen færdig

Bústaðarferðinni lokið og hinir þrír fræknu snéru til höfuðborgarinnar eftir rólegan morgun og yfirvegaða tiltekt og þrif. Ekki spennandi svosem að elta uppi tómar bjórdósir úti í skóginum í ákveðnum radíus frá heita pottinum í hellandi rigningu. Magnað hvað sumir ætla að þroskast seint upp úr gaggófasanum og þörfinni fyrir fleygja þessu bara hvert sem er.

Í heildina litið var helgin bara success. Bara góða skapið og almenn jákvæðni í hópnum sem er gríðarlega hressandi reynsla. Svenni sýndi okkur hversu illa langtímagyllinæð getur leikið afturenda karlmanns á þrítugsaldri í pottinum í gærkvöldi. Kappinn, sem var nýkominn út þeytingi í bæinn á mikilvægan bissnissfund (þar sem hann var að mergsjúga þessa síðustu þúsundkalla sem kreistandi var út úr kókoshnetufyrirtækinu) og skellti sér í pottinn með kommando-stæl. Hann ákvað að taka nokkrar hressandi pósur fyrir okkur hina (man einhver eftir morðingjanum í Silence of the Lambs? Þessum ljóshærða sem var með litlu stelpuna fangna niðrí brunni? ... og man einhver eftir pósunni hans fyrir framan myndavélina?). Það var ekki eina pósan. Við tókum nokkrar myndir í laumi til að geta kúgað út úr honum pening þegar hann Kókónött yfirtekur Símann...

Ég tapaði hratt í pókerspili gærkvöldsins og náði endanum á fyrstu Stakeout myndinni sem var frá, eins og ég skaut á, 1987. Svakalega var Madeleine Stowe myndarleg á þessum árum...

Við náðum góðum Borgarfjarðarhring í gær, tókum Reykholt og Hraunfossa. Dvöldum mjög stutt á hverjum stað sökum kulda. Maggi tuðaði endalaust yfir því að það væri ekki opið í sjoppunni við Hraunfossa. Hann langaði í pylsu víst...

Flensan að hverfa og haldið áfram af krafti í líkamsræktinni! ... Nú duga engar kerlingabrækur. Liðnar 4 vikur af átakinu fram til jóla og ekki nema smá árangur náðst. Stefnan tekin á 16% fituprósentu 15 desember og það ætti að takast með góðu átaki. Nú verða keyptir tveir Myoplex Lite dunkar á morgun og Hydroxycut með. Hújeee...

11.11.05

Hressandi félagar

Ég er svo einstaklega heppinn að eiga að marga góða en mjög ólíka vinahópa. Er á leiðinni með einum slíkum - og sennilega þeim sérstæðasta - í smá sumarbústaðaferð seinna í kvöld, þrátt fyrir fuglaflensuna, sem er í eilítilli rénun. Þetta er a.m.k. farið að skiljast með mælt mál sem ég segi, en ekki sem parasöngur auðnutittlinga, eins og einn fuglasérfræðingurinn hélt fram að kæmi út um munninn - gogginn - á mér. Fjaðrirnar eru að hverfa og fluggetan orðin mun minni.

Þeir sem skjótast með í ferð verða Svensterinn og táningsviðhaldið hans, Másinn og Gernie the Wee Man - Öddi fyrir venjulega fólkið. Við höldum úr bænum um kvöldmatarleytið og reiknum að mæta í Munaðarnes tveimur tímum seinna. Annars læt ég Svensterinn http://svenni76.blogspot.com/2005/11/brennt-upp-bsta.html segja betur frá þessu, enda er hæfileikinn til að bjaga raunveruleikann óvíða meiri en á þeim bæ :D

Magisterinn

Magister Ásgeir er merkilegt fyrirbæri. Nágranni minn til núna eins og hálfs árs er týpa sem erfitt er að henda reiður á og líkja við eitthvað eitt. Ef einhver kemst nálægt því þá væri það einna helst karakterinn sem leigði Woody Harrelson íbúðina í Kingpin, ljóta gamla kellingin sem lét sér duga að rukka greyið um leiguna með kynlífsgreiðum. Magisterinn er svolítið eins og karlkynsútgáfan.

Það er ómögulegt að negla niður hvað hann er gamall. Hann er svona ógeðslega slepjuleg týpa með axlarsítt slétt hár og blettaskalla og með gervitennur. Hann lyktar ógeðslega og íbúðin angar eins og eitthvað hafi skriðið þangað inn og dáið. Hann er einstaklega leiðinlegur, gerir lítið annað en að tuða og ekki síst yfir svertingjunum sem leigja á hæðinni fyrir neðan. Hann er sennilega búinn að setja upp tvo aukalása eftir að þeir fluttu inn, miðað við þusið í honum.

Stundum sér maður hann hérna úti á svölunum glápandi út í loftið á baðsloppnum .... urgh! Þegar ég er úti á mínum svölum stenst maður stundum ekki mátið og gægist inn til hans. Íbúðin er innréttuð svona eins og íslenskt sveitaheimili, með plusssófum, borðstofu og skenk og auðvitað lítinn íslenskan fána á stöng.

Stundum angar íbúðin af hlandlykt sem bendir til að ekki sé nú allt í lagi með pípuverkið í gamla skoffíninu. Eitthvað sem bendir auk þess til að hann sé nú eldri en maður heldur. En kallinn kvartar aldrei yfir partýhávaða frá mér og finnst ekkert að því ég sé með læti fram eftir nóttu ... þannig að sumu leyti er Magisterinn hinn fullkomni nágranni...

10.11.05

Bjánahrollur

Maður vikunnar á Hriflu.is - vefmálgagni framsóknarfélaganna í Reykjavík - er: tadaaaa: Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra!! ... surprise surprise!!

Ég held að ég hafi aldrei slæðst inn á í þessa síðu öðruvísi en að þar væri eitthvað annað en framsóknarmaður, núverandi eða fyrrverandi, maður vikunnar. Þetta er hætt að vera fyndið. Þetta er í raun farið að minna á áróðursmaskínu kommúnistaflokksins í Sovét sáluga.

Framsókn er það sorglegasta í íslensku þjóðlífi, það er alveg á hreinu. Dóri gamli er ágætis kall í sjálfu sér, en hann ætti miklu frekar að stýra einhverju sunnlensku stórbýli frekar en ríkisstjórninni

Pest

Jæja, haldiði ekki að kallinn hafi hafi krækt sér í eitt stykki fuglaflensu. Fór snemma úr vinnu í gær og hélt í foreldrahúsin í Garðabæ þar sem ég vissi að þar yrði mér hjúkrað eins og litla prinsinum sæmir. Gisti þar jafnframt í nótt og endurupplifði æskuárin eins og venjulega.

Það er ekkert sérstakt að vera með fuglaflensu. Leiðindahálsbólga og hausverkur auk þess að óeðlilegur fjaðravöxtur á upphandleggjum og þörf fyrir að blaka höndunum í tíma og ótíma, með það að markmiði auðvitað að taka flugið og skoða heiminn úr lofti. Það gekk svo sem ekkert vel og ég hugsa að gott brasilíanskt vax ætti að sjá um fjaðravöxtinn.

Rosalega eru Girls Aloud sætar. Sérstaklega klæddar í drullugum dekkjaverkstæðisgöllum og útkámaðar í meiki og smurolíu. Got to love it...

7.11.05

ManUtd.

Í fyrsta skipti á ævinni þá hélt ég með Man. Utd. í fótboltaleik. Enda voru þeir að kljást við hinn illa auðhring Chelsea í leik í úrvalsdeildinni ensku í dag. Leikurinn fór 1-0 fyrir rauðhausunum okkur til mikillar ánægju sem voru að horfa. Ekki það að ég sé fótboltaaðdáandi no. 1, langt frá því, en þetta var hressandi og spennandi viðureign í alla staði. Og ekki spillti ísinn og súkkulaðikakan sem Vala var svo væn að bjóða okkur upp á meðan við horfðum...

Mikið rosalega finnst mér Grafarholtið ópersónulegt og sterílt hverfi, get aldrei vanist þessu þegar maður fer í heimsókn til B&V.

5.11.05

Bíllinn loksins orðinn eins og stálsleginn. Sótti hann í Ræsi í gær og vélin gengur eins og engill ... jei! Spurning um að stökkva út í góða veðrinu og Þvo hann rækilega og smella á hann svo sem einu bónlagi eða tveimur? ... Held það bara.

Síðan á að taka nett alternative rölt í bænum í kvöld með Gugz og Gústa frænda. Ætla að reyna að dobbla þau í að kíkja á Grand Rokk og hver veit nema förin endi á Sirkus eða Kaffibarnum ... hressandi tilbreyting frá Oliver.

2.11.05

Strædebuss

Held ég hafi aldrei fyrr tekið strætó jafn oft á einum degi. Fyrst í morgun eftir að hafa hent bílnum í viðgerð hjá Ræsi, síðan í hádeginu aftur niður í bæ, frá Lækjartorgi upp á Hlemm og aftur til baka eftir að hafa gleymt einu smá erindi, síðan aftur upp í vinnu, í mat í Garðabæ (3 strætóar) og til baka aftur og í Laugar, frá Laugum og heim! Steig sem sagt 12 sinnum upp í strætisvagn í dag. Geri aðrir betur.

Heppinn að hafa keypt mér gult kort síðasta föstudag þegar ljóst var bíllinn myndi neita að þjóna mér næstu dagana, sökum gangtruflanna og sumardekkja.

Annars finnst mér ósköp notalegt að taka strætó í raun og veru. Hugurinn reikar óvíða eins vel eins og við það að horfa út um gluggann á strætó og það er alltaf hressandi að taka nettar mannlífsrannsóknir á liðinu sem er með manni. Síðan fylgja strætó alltaf nokkrir hressandi labbitúrar, ekki síst hér í miðbænum, og maður hættir aldrei að uppgötva eitthvað nýtt og áhugavert í umhverfinu í 101.

Skil ekki fólk sem getur ekki hugsað sér að taka strætó, hvort sem það er vegna slæmrar sjálfímyndar og antiklimax við að ferðast 'með aumingjunum' í strætó eða þessarar landlægu óþolinmæði Íslendinga sem virðast geta tekið sér tíma í allan fjandann, sama hversu tilgangslaust það er, nema koma sér milli staða. Þetta er ekkert mál, ef maður sættir sig við þá staðreynd að maður er nánast aldrei eins fljótur á milli staða og á bíl og tekur því bara eins og það er. Það er fyndið að heyra meðaumkunarraddirnar hjá sumum þegar maður segist vera að taka strætó. "Æj á ég ekki að skutla þér?, ertu alveg viss?" ... rétt eins og það sé verið að siga mann inn í hringleikahús að berjast við ljónin ...

Samt vona ég að þessi helv. snjór fari af götunum bráðum og elsku Gullvagninn minn verði betri en nýr eftir viðgerðina hjá Ræsi. Þá á ég eflaust eftir að taka nett rúntsession og þeysa eitthvað næstu helgi á ólöglegum hraða, og hvíla mig aðeins á strætó. Hújeeeee!