Samminn

29.11.05

Jeppaferð og visitasía

Jæja, þá er sérdeilis hressandi útilegu lokið. Ferðalagið með Hvíta Satan upp á fjöll sveik engan. Við vorum rosalega heppnir með veðrið (fyrir utan hitastigið e.t.v.) þar sem það var tiltölulega heiðskýrt allan tímann. Á föstudagskvöldið var stjörnubjart og ekkert tunglsljós, þannig að maður gat testað gömlu stjörnumerkjaviskuna ... sem var nú aldrei neitt gríðarleg, en maður gat þó talið upp helstu stjörnunar í Oríon t.d. og einnig fann maður gamla kunningja í Kassíópeiu.

Harkið og baslið var aldrei langt undan, eins og sæmir alvöru fjallaferð. Aggi gerði heiðarlega tilraun til að slétta úr vænum stein með framdekkinu, en varð að játa sig sigraðan og við eyddum drjúgum tíma einir í myrkrinu á laugardagskvöldið að taka framdekkið undan og berja á beygluðu felgunni þannig að við gætum blásið í aftur.

Skálarnir í Nýjadal buðu upp á þriggja stjörnu gistingu, með innihitastigi upp á sirka núllgráður og biluðum ofnum. Furðulegt að það sé engin einangrun í þessum skálum. Við Angus vorum reyndar svo heppnir að vera í heitari skálanum og enduðum ekki á því að kvefast, eins og sumir gerðu um helgina. Við vorum í skála með hressu liði, og sérstaklega einum wisecrack 11 ára strák sem hélt því fram allt kvöldið að ég væri ótýndur sirkusþjófur eftir að hafa sigrað hann í Olsen Olsen nokkrum sinnum :-) ... auðvitað leyfði ég honum aldrei að vinna, þarf að herða þetta lið! :-) Náði samt aldrei að sparka hann almennilega í afturendann fyrir þetta komment.

Núna hef ég komið upp á alla helstu jökla landsins! Og það á tveimur árum eða svo. Þrefalt húrra fyrir Agga, Pattanum, óseðjandi fjalladellu og lítill áhuga kærustu Agga á sömu hlutum!

Rétt í þessu var mamma með smá visitasíu hér á Baldrinum. Ég fékk að venju frekar slaka einkunn fyrir þrif, en plús fyrir þessa einstaklega menningarlegu seríu sem er komin á svalahandriðið norðanmegin! Jólin koma hjá Sammanum! Fylgist með ...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home