Jæja, þá er Færeyjaförinni lokið og kallinn kominn heim heill á húfi. Og það þrátt fyrir að fljúga með Atlantic Airways, sem eiga það víst til þessa dagana að aka út í skurð við lendingu. Slæmur vani sem þeir hafa gefið upp á bátinn - í bili.
Árshátíð Línuhönnunar var sem sagt haldin úti í Færeyjum þessa helgina, 20 - 22. október. Fórum á föstudaginn um hádegisbilið og lentum á Vogaflugvelli um þrjúleytið. Um eftirmiðdaginn tók við stutt skoðunarferð um Þórshöfn í fylgd Davíðs Samúelssonar, leiðsögumanni og fyrrum upplýsingafulltrúa á Suðurlandi. Við tveir vorum í töluverðum samskiptum í tengslum við íbúaþing sem ég tók þátt í að skipuleggja í Árborg fyrir þremur árum síðan.
Um kvöldið var þjóðdansafélag Færeyja heimsótt og hvar við stigum hringdans. Kallinn var með mottu í tilefni af keppninni um "Færeyinginn 2006", en mér datt í hug að stefna til smá keppni á stofunni um hver gæti safnað glæsilegasta yfirvaraskegginu fyrir ferðina. Það tóku 8 þátt og tveir skeggapar af stofunni tóku að sér að dæma keppendurna. Anyways, maður tók sig helv. vel út með mottuna stígandi hringdans í litlu aflokuðu rými í gömlu húsi í Þórshöfn með enn eldra fólki dansandi. Stigum "Orminn Langa" og kyrjuðum um helminginn af þeim 75! versum sem honum tilheyrir. Tókum Vikivaka seinna um kvöldið. Hressandi semsagt.
Á Laugardaginn var vaknað snemma og farið í rútuferð um Straumey og Austurey. Skemmtileg ferð. Enduðum í Gjógv - eða Gjá - þar sem ég hafði farið áður reyndar með honum Svein Rasmussen um árið, eða þegar ég flutti bílinn minn heim sumarið 2003. Hugsa meira að segja að ég geti fundið bloggfærslu frá þeim tíma.
Um kvöldið var síðan sjálf árshátíðin. Búið að skoða keppendur í "Færeyingnum 2006" fyrr um daginn þannig að ég rakaði dýrðina og klæddi mig í rauðu flagaraskyrtuna sem Svenni, Mási og Anna Dögg gáfu mér í þrítugsafmælinu í sumar. Mjööööög flott to say the least. Fékk mikið respect um kvöldið. Enda var ég baneitraður um kvöldið. Fór inn á herbergi um fimmleytið og vaknaði um tólf. Út af herberginu um tvö og rölti niður í bæ hvar ég fann eina staðinn sem var opinn og smellti mér á þynnkuborgara.
Í heimleiðinni var komið við í Kirkjubæ, hvar við skoðuðum Ólafskirkju og Reykstofuna, 900 ára gamalt timburhús og sennilega það elsta í heiminum sem enn er búið í. Þar var borðað og það í elsta hluta hússins. Mjög sérstök reynsla.