Samminn

30.11.06

Tilboð í Bensann

Jæja, það er komið tilboð í Gullvagninn.

Tilboðið hljómar upp á ótilgreinda upphæð og uppítöku á öðrum Benz. Aðeins eldri og meira eknum, en stærri, rúmbetri og sennilega þægilegri í viðhaldi. Sá er að vísu orðinn heldur lúinn, á þó sennilega eftir einhverja góða spretti, svona ef að líkum lætur.

Ég hugsa að ég geri gagntilboð og slái til. Maður er jú búinn að eiga Gullvagninn í sex ár og það eru búin að vera góð sex ár. Þetta er einn besti bíll sem ég hef átt og ljóst að ég mun sakna hans mikið. en hann er jú orðinn 16 ára, og farinn að kalla á meiri alúð og ást en ég get veitt honum greyinu. Guttinn sem ætlar að kaupa hann - ásamt pabba sínum - er líka mjög trúverðugur næsti eigandi bílsins. Forfallinn bíladellukall og Benzaðdáandi. Hann á eftir að hugsa vel um bílinn næstu árin. Ár sem sennilega geta verið hans síðustu, svo maður hljómi nú tregablandinn.

En allt gott tekur enda. Best að sætta sig við það.

25.11.06

Planta

Fékk sms frá Másanum í nótt. Þar tjáði hann mér að kappinn væri - ásamt Svenna - staddur í Amsterdam. Ekki skal koma neinum á óvart að þar tjáði hann mér einnig að kapparnir væru báðir vel í glasi og vel hressir á því, nýkomnir í gegn um rölt um rauða, græna og bláa hverfið í Amsterdam...

Íbúðin fékk enn eina grænu viðbótina í dag eftir að ég kom heim úr Garðheimum með nokkurs konar vafningsplöntu, sem ég reyndar man ekki hvað heitir. Hún er mjög falleg, en ég fékk smá efasemdir þegar heim var komið. Vafningsplöntur eru jú þess eðlis að þær velja sér einhverja fasta hluti til að festa sig við og vaxa upp á við, svona rétt eins og vafningsviður utan á húsum. Mun kvikindið því finna sér næsta vegg eða skáp og nota til síns brúks næstu misserin? Fylgist spennt með!!

Sá nýja Bondinn um daginn. Ansi góð mynd barasta. Nýji Bondinn er samt helv. brútal á því. Lemur menn í harðfisk eins og versti húligan. Hvað varð um snyrtileg og banvænu höggin aftur í hnakkann, eins og Connery og Moore voru æfðir í? Er MI6 eitthvað farið að förlast í þessu? ... Og það var enginn Q ... því miður. En lokaniðurstaða: þrjár stjörnur.

22.11.06

Hér sé snjór, og smá fréttir

Vúbbs ... bið alla vini og félaga margfaldrar afsökunar á bloggleysi. Þetta gengur auðvitað ekki, ekki síst í ljósi þess að flestir þeirra eru staddir erlendis og vilja (vonandi) vita hvað gengur á, svona milli þess sem maður opnar msn...

Í fréttum er þetta helst (daddaddarraddddaddddaa (svona fréttastofustef)):

Gullvagninn situr á kviðnum á Haðarstíg í miðborg Reykjavíkur, hvar hann kemst hvorki lönd né strönd. Minn besti vinur þessa dagana er Gula limósínan ... nei ekki Goldfingerlimminn, heldur Strætó bs. Tveir jafnfljótir og kuldaskór eru gott stuðningstæki líka...

Nóg að gera í vinnunni, við að bjarga borginni. Eins og alltaf. Hef reyndar ekki náð að troða mér á málþing eða í sjónvarpið síðan í september. Slakur árangur. Stendur til bóta...

Fræðslufíknin er að kvelja mig þessa dagana. Langar mikið út í meira nám þessa dagana. Spurning hvenær og hvert ... og reyndar hvað. Urban transport? Urban planning? Regional urban transport planning? Urban design? Sustainable Urban Planning? Svei...

Langar reyndar líka í einhver annars konar ævintýri. Austur-Evrópa og rússneskunámskeið í nokkra mánuði hljómar líka geysivel ...

Annars stefnir í ársbundna Thanksgiving hátíð hjá Stebba bro og Ingu Mákku um helgina. Þar verður einum fylltum kalkún slátrað í bakgarðinum og hann étinn um kvöldið.

Meira síðar!