Samminn

26.3.06

Pink

Sá ansi merkilegt framlag söngkonunnar Pink í baráttuna um útlits- og æskudýrkunin sem tröllríður vestrænu samfélagi þessa dagana, að því er virðist vera.

Minn maður stóð upp úr sófanum í morgun - hvar hann lá og skoðaði Internetið - og klappaði Pink lof í lófa eftir að hafa fylgst með myndbandinu við Stupid Girl. Myndbandið byrjar á ungri stelpu sem er í þungum þönkum um þá möguleika sem henni bjóðast. Eitthvað virðist hún spennt fyrir því að prufa meik og kinnalit litla blessunin. En þá kemur Pink og sest á öxlina á henni og leiðir hana í allan sannleika um muninn á því að vera bræt eða stjúpidd. Og myndbandið sýnir síðan hina mjög svo grunnhyggnu Pink láta stækka á sér brjóstin og fara í fitusog, kafna úr eitrun - skælbrosandi þó - í brúnkuklefanum, þvo bílinn í allt of litlum fötum og hvaðeina til að vera flottari og meira sexí og vera ofan á í hinum harða heimi hnakka og hnátna. Myndbandið lýkur á því að sýna hina grunnhyggnu Pink fyrir framan bleika blæjubílinn sinn 20 árum seinna, hrukkóttari en andskotinn og hálf bæklaða af lýtaaðgerðum, en samt sem áður enn skælbrosandi yfir því hvað hún sé flott. Minnti mann óþægilega mikið á margar af gömlu Sigtúnsdrottningunum sem maður sér í Laugum, fertugar með leðurhúð og sigin brjóst og enn í þröngu æfingargöllunum, en alveg sömu "gellurnar" auðvitað!!

Mjög ánægulegt hjá henni Pink ... þótt hún sé nú kannski ekki sú trúverðugasta þegar kemur að þessum málum. Enda er hún freeeeekar flott sjálf.

Pís át hóm

21.3.06

Laibach á morgun

Þá er það ákveðið.

Ég fer á tónleika http://www.laibach.nsk.si/">Laibach
á Nasa annað kvöld. Slæst í för með Gautreki hinum hugumprúða og Litla-Birgi.

Fyrir þá sem ekki vita það þá er Laibach með áhrifameiri sveitum síðustu tveggja áratuga eða svo. Kemur frá Slóveníu og spilar það sem kallað hefur verið fastistadiskó. Er áhrifavaldur hljómsveita á borð við Rammstein, Ham og fleiri.

Hressandi kvöld framundan.

Og já, rétt að minnast á það ..... það fundust kakkalakkar í íbúðinni fyrir neðan. Svo virðist sem fleira hafi verið í farteski afrísku vina minna hingað til lands en bara bumburnar. Hressandi ...

20.3.06

Í Laugum

Ég get alveg skilið það þegar menn gera líkamsrækt að áhugamáli. Svo sem ekkert verra áhugamál en hvað annað. Eflaust bestu grey flestir þeirra sem það stunda. Sumir ganga þó lengra en aðrir, og það er alltaf áhugavert og stundum fyndið að fylgjast með athöfnum þeirra í salnum í Laugum.

En þetta áhugamál getur gengið of langt. Allt of langt.

Látum vera það að bryðja stera eins og brjóstsykur, vera tannaður með litla ljósa rák í rassaskorunni og geta ekki skeint sér sjálfur. Það er lítið annað en merki um rangar áherslur í lífinu.

En að raka félagann og krúndjásnin niður að skinni. Það er oooof mikil að mínu mati. Þar eru menn farnir að hafa truflandi áhrif á mig í sturtunni í Laugum. En hvað menn mættu láta það vera. Allt í lagi að trimma og gera snyrtilegt. En raksápa og Gillette, það er pínku yfir strikið. Nema ef vera skyldi að þarna sé um atvinnumenn að ræða? Þá fyrirgefur maður það kannski...

9.3.06

Go West ... aftur?

Já, þá er maður á leiðinni vestur. En að vísu ekki alveg vestur um haf. Onei ... enn betra en það. Ferðinni er heitið vestur á Ísafjörð um helgina. Nánar tiltekið á laugardaginn og til baka um kvöldið. Jámm.

Enn einu sinni er maður kallaður til aðstoðar og ráðgjafar. Og þegar neyðarkallið berst neyðist maður auðvitað til að sinna því. Ísfirðingar standa ráðþrota fyrir samgöngu- og skipulagslegum vandamálum og þá er auðvitað ekki í nein önnur hús að venda en hjá undirrituðum. Ég sagði þeim að ráðgjöfin væri dýr, enda um að ræða þann besta í bransanum, en fólkið kom til mín með vannærða hvítvoðunga í reifum og grátabað um aðstoð. Það er um lífsbjörg Ísfirðinga að ræða. Auðvitað rennur manni blóðið til skyldunnar og ekki annað hægt en að slá verulega af kröfunum, eins og venjulega. Maður neyðist því til að fresta Cayenne Turbónum um nokkra mánuði ef þetta heldur svona áfram. En hvað gerir maður ekki fyrir náungann?!?

2.3.06

Út til Afríku

Nú er það svo að allt það fólk sem ég umgengst er allt hið hressasta og líflegasta sem nokkur maður getur óskað sér. En í ljósi allrar þeirrar umræðu um þunglyndi sem virðist viðgangast á Íslandi og svo sem víðar, þá er því ekki neitað að allt of margir þjást af þeirri upplifun að lífið hafi ekkert upp á að bjóða. Auðvitað eru margir að kljást við alvöru sjúkdóm á formi þunglyndis, en mjög margir sen eru þunglyndir vegna eirðarleysis og finna sig e.t.v. ekki í því sem þeir eru að gera. Þrátt fyrir að njóta þeirra ótrúleg lífsgæða sem við njótum hér á gamla Klakanum, þrátt fyrir að vera yfirleitt í faðmi fjölskyldunnar og vera fjárhagslega öruggir.

Ég gluggaði í ansi merkilega og nýlega bók eftir Kanadamann sem er - ef ég man rétt - sérstakur ræðismaður Afríku hjá Sameinuðu Þjóðunum, þegar ég var hjá Snæbó frænda í Baltimore. Þar fjallaði hann um ferðir sínar um hina sjúkdóma- og stríðshrjáðu Afríku og þá ótrúlegu þróun að Aids hefur nú nánast þurrkað út heila kynslóð. Afríka sé í raun ekki orðin annað en samfélag barna og gamalmenna. Þvílíkar hörmungar sem þetta hefur í för með sér fyrir efnahag, samfélag og umhverfi. Menntun hrakar, lífslíkur dvína og dauðinn vofir yfir fjöldamörgum löndum. Börn þurfa að sjá um deyjandi foreldra sína og dæmi um ömmur og afa sem þurfa að jarðsetja öll börn sín vegna Aids. Það virðist samt ekki duga og fólk snýr hausnum frá vandanum, þrátt fyrir Live 8 og hvað þetta nú heitir. Þó er von og smá glæta til að þróuninni verði snúið við á næstu áratugum, en mjög hægt og bítandi.

Ég sá í bókinni ágæta leið fyrir lífsleiða og ofalda Íslendinga til að finna aftur lífsgleði og tilgang með lífinu. Bjóða fram krafta sína í hjálparstarf í Afríku. Allir fullhraustir Íslendingar sem vilja og þurfa smá tilgang í lífinu að drífa sig og skrá sig í hjálparstarf Rauða Krossins eða eitthvað sambærilegt, í ár eða svo. Hugsa að þetta sé mun betri lækning en heilu gámarnir af prósak. Maður gat lesið þvílíkt þakklæti var sýnt þeim sem hjálpuðu til við hjálparstarf á þessum slóðum.

Það er meira að segja hægt að koma vel út úr þessu fjárhagslega. Ef menn eigið íbúð, þá geta þeir leigt hana út og sennilega með því að enda í meiri plús undir lokin heldur en ef menn héldu áfram að vinna heima og eyða pening í djamm, pizzur, bensín, yfirdrátt og annað rugl. Hugsa a.m.k. að það myndi enda þannig í mínu tilfelli...

Ég? Það gæti bara vel verið! Held að svona færi sér ótrúleg ævintýri og lífsreynslu í för með sér. En það er nóg annað á könnunni svo sem ... þessa stundina.

Over and out ... of Africa

Blogg aus der Bett

Ligg klukkan hálf tvö uppi í rúmi og hlusta á veikar raddir afrísku vina minna í íbúðinni fyrir neðan. Hressandi...

Þetta er reyndar í fyrsta sinn sem ég blogga úr rúminu, og engar áhyggjur. Ég er siðsamlega klæddur...

Frægasti og mesti Íslendingurinn um þessar mundir - Sylllllvöööaaavenster - hinn mikli lagasmiður og fjölhæfileikamaður beitti mig miklum þrýstingi núna í kvöld. Stefnan er tekin á hina vinsælu Evrópsku Vondulagakeppni í Aþenu í maí næstkomandi. Ég spurði auðvitað einu spurningarinnar sem þurfti að spyrja "eru kasínó í Aþenu". - "Auðvitað!" svaraði Svenster um hæl og minn var ekki lengi að stökkva um borð...

Mundi allt í einu eftir bestu setningunni úr Baltimore-ferðinni góðu um síðustu helgi. Formálinn er sá að ég er staddur í Vosbúðartúni, í svona lítilli túristarútu, dulbúinni sem sporvagni (how charming ... ferðin byrjaði með því að bílstjórinn hringdi svona lítilli bjöllu "ding ding" og spilaði lítinn lagstubb þar sem Judy Garland syngur um þá gríðarlegu gleði sem sporvagnar færa henni ... oohh joy (af hverju geta þeir ekki drullað upp alvöru sporvagnakerfi þarna í Washington??)) ... anyways, við ókum fram hjá nýrri byggingu Smithsonian safnsins sem inniheldur sögu (minnir mig) frumbyggjanna, þ.e. indíánanna. Ökumaðurinn minn - hin geðþekka Erica - útskýrir hönnun byggingarinnar og bendir á að í byggingunni séu engin hvöss horn. Og það er rétt. Það var ekki hægt að sjá eitt einasta hvassa horn á byggingunni. Allt mjög rúnnað einhvern veginn. Og Erica útskýrir fyrir okkur að ástæðan sé sú að indíánar telja að illir andar búi í hvössum hornum. Og þá gellur í einum farþeganum, aftast í vagninum "did anybody notice how many sharp corners there were on the Capitol Building?" .... bbbwwwaaahhahahahaahaaaa

Jæja, best að reyna að sofna þrátt fyrir afríska slúðurdálkinn á hæðinni fyrir neðan. Ég verð að fá lágmarks fegurðarblundinn minn ...