Samminn

14.4.07

Af djammi, landsfundi o.fl.

Jæja, þá er íbúðin í Kiev frágengin og tilbúin. Konni - hinn úkraínsku félagi minn - bjargaði fyrirframgreiðslunni fyrir mig með því að fara á staðinn. Það einfaldaði málin mikið frá því að reyna að láta bankann millifæra upphæðina. Hressandi.

Gærkvöldið endaði í djammi og rugli eftir fredagsöl í vinnunni og vísindaferð arkitektanema á stofuna. Auðvitað var boðið í partýpleisið að Baldursgötu 12 og tekið nokkuð hressilega á því. Hópurinn tók síðan stefnuna niður á Laugaveginn. Arkitektanemarnir lofuðu ókeypis veitingum á Pravda, þar sem einhver hópur átti að hittast. Mættum og seint og urðum vitni að brúnkukremshetjunum mæta á staðinn. Flúið á Kaffibarinn og síðar á Sirkus. Krúttkynslóðin átti kvöldið. Hitti tvær grískar píur á Kaffibarnum og leiddi þær í allan sannleika um skemmtanalífið í 101. Fékk skutl heim í verðlaun. Hressandi.

Upplifði stemninguna á fyrsta landsfundi sjálfstæðismanna núna áðan. Hressandi blanda af æstu fólki með miklar skoðanir og mörgum grandvörum einstaklingum. Kynslóðamunurinn er ótrúlega mikill. Íhald vs. hægri. Undirbúin breytingatillaga um íhaldslega afstöðu um flugvöllinn, sem vonandi verður borin upp í fyrramálið. Slavneska hetjan hann Pawel Bartozcek ber hana sennilega upp, enda yours truly ennþá of feiminn til að stíga upp í pontu fyrir framan Geir, Þorgerði og allar hetjurnar.

4.4.07

Kiev græjuð

Síðasta redding fyrir Úkraínuferð í dag. Pantaði mér loks íbúð í Kiev. Litla en ágæta tveggja herbergja íbúð við Breiðstræti Stalíns, eða Geroev Stalingrada í Obolon-hverfinu. Hérna er hlekkur sem sýnir allt sem sýna þarf.

Íbúðin er alls ekki sú ósmekklegasta sem hægt var að finna á hinum óteljandi vefsíðum sem bjóða upp á íbúðir til leigu. Hvet menn til að vafra um aðrar íbúðir sem eru í boði. Úkraínumenn eru býsna hrifnir af furðulegum litum og alls kyns mynstri, sem mér finnst ekkert voðalega hressandi. En þeir um það.

Það sem er mest hressandi við staðsetninguna er þrennt. Hún er í frekar nýbyggðu hverfi, vestan við Dniepr (býsna grand í raun), hún er nálæg baðströndinni við Obolon og svo komst ég að því að Konni býr við sömu götu. Hún er reyndar mjög stór, svo það er e.t.v. ekki svo mikil tilviljun. Ætli hálf Reykjavík myndi ekki komast fyrir í blokkunum við hana.

Borgaði flugið í síðasta mánuði, þannig að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. Departure þann 7. júní og zurick þann 10. júlí. Úje...

Hressó hressó þróun.