Samminn

24.11.05

Jeppaferð um helgina

Það hlaut að koma að því að Aggi hóaði á hinn staðfasta og síviljuga kóara sinn og plataði hann með í jeppaferð um helgina. Helgin verður því undirlögð jeppabrölti uppi á hálendinu og það er hreint ekki verri aðferð til að eyða helgini en hver önnur. Og talsvert meira spennandi en næturbrölt í miðbænum, þótt það geti einnig verið gríðarlega hressandi við vissar aðstæður...

Ferðinni er heitið upp á Sprengisand á föstudaginn, og við ætlum að reyna að leggja af stað rétt upp úr hádegi. Þetta er hluti af nýliðaferð 4x4, þótt Aggi segi að fæstir að þeim sem eru búnir að skrá sig séu nýliðar í bransanum. Á meðal jeppa í ferðinni verður græna gamla Hummer monsterið á 44" dekkjum sem maður sér af og til veltast um í borginni. Ógurlegt tröll, og frekar undarlegur eigandi ef marka má reynslu Agga...

Á laugardeginum er planið að reyna að fara upp á Vatnajökul, og upp að Grímsvötnum. Magnað ef af verður. Ég er nú þegar búinn að fara upp á Langjökul, Hofsjökul, Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul með Hvíta Satan, en drotting jöklanna er enn eftir. Markmiðið er auðvitað að brölta sem mest og helst festa jeppann duglega nokkrum sinnum. Það er engin ferð án þess að menn séu hálfan tíma að kippa öðrum af stað með tóg, nú eða sprengja dekk á felgur. Það hefur nú reyndar ekki komið fyrir nema einu sinni áður í ferð þar sem ég fékk að þvælast með, en þetta er magnað trikk...

Ætti maður að kaupa sér jeppa sjálfur? Því er ekki að neita að þvælingurinn með Agga kveikir í manni smá þörf að hella sér út í bransann. En æ nei. Maður hefur í fyrsta lagi ekki efni á svona brölti af eigin rammleik og síðan fullnægir bröltið með Agga alveg ævintýraþörfinni ... í bili a.m.k.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home