Samminn

23.12.05

Meiri geggjun

Jámm, þá er það á hreinu: Íslendingar skulda 75 milljarða króna í yfirdráttarlán. Þetta eru kvartmilljón á hvern haus í landinu. Þetta var hressandi frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag Þorláksmessu - daginn þegar þeir allra síðustu hlaupa til og kaupa - tjahh ... skuldsetja sig - fyrir síðasta plasmasjónvarpinu sem til var í BT.

Ég verð að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að skilja þetta. Af einhverri furðulegri ástæðu finnst mér mjög óspennandi að vera háður öðrum með greiðslur og afborganir. Að taka lán upp á 17 - 20% vexti - sem virðist vera hin venjubundna vaxtaupphæð yfirdráttarlána - hljómar eins og eitthvað sem einungis fáeinir og verulega galnir einstaklingar myndi láta sér detta í hug. Og í einhverjum neyðartilvikum. En núna sér maður að þetta á við um alla íslensku þjóðina. Og er langvarandi ástand. Maður getur ekki annað en farið að velta því fyrir sér hver sé sá galni í þessu dæmi? Er það ég - sem finnst þetta vera dæmi um einhverja þá óskynsamlegustu fjármálastjórn sem fyrir finnst og ömurleg óvirðing gagnvart fjármunum og verðmætum - eða neyðist maður til að stimpla lungann af íslensku þjóðinni sem steingalna? Hvar og hvernig liggur steinninn grafinn í þessu dæmi?

Og hvernig stendur á þessu misræmi milli Íslendinga og nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum? Nágrannaþjóðir okkar - allar sem ein - virðast líta á fjármuni og peninga mjög alvarlegum augum og ofurvaxtalán - eins og má sennilega flokka yfirdráttarlán - almennt talið síðasta úrræði í einhverjum undantekningartilvikum. Við dvölina í DK upplifði maður það að fólk fjárfesti mjög treglega í hlutum nema eiga fyrir þeim, og lán fyrir hvers kyns minni háttar eigum var eitthvað sem var undantekningin. Danskurinn keypti sér þó oft flotta hluti og dýr og vönduð merki, en sjaldan nema að eiga virkilega fyrir þeim. Sparnaður og virðing fyrir fjármunum og peningum virðist innbrennt okkar helstu nágrannaþjóðir. Og oft á tíðum einum - og jafnvel allt - of mikið. Þegar maður segir öðrum Íslendingum frá er eins og þessi hugsun flúgi í gegn um hausinn á - flestum - a.m.k. nokkrum - þeirra: "djöfull eru þeir gamaldags og lummó".

Ef maður gengur út frá því að um íslensku þjóðina gildi sömu lögmál og um aðrar þjóðir á þessum hnetti, og við séum í raun alveg jafn skynsamur hópur fólks og hver annar, þá getur í raun ekki annað en ályktað sem svo að nágrannaþjóðir okkar hafi - á einhverjum tímapunkti - lent í einhverri óspennandi reynslu, sem hafi kennt þeim að virðing gagnvart fjármunum sé gulli betri og sparnaður sé skynsamleg leið til að tryggja áhyggjulausa framtíð. Getur verið að við Íslendingar séum á sömu braut og þeir áður en áföllin dundu yfir? Og eigum þannig eftir að lenda í einhverjum stórkostlegum hremmingum sem afleiðing af ríkjandi óvirðingu fyrir eigin fjármunum?

Eða á maður bara að hætta að hugsa og demba sér út í ruglið? Kannski er það bara málið...

1 Comments:

Post a Comment

<< Home