Samminn

9.3.03

Kominn aftur úr nettum túr niður í land skemmtaranna, Þýskalands, með snillingunum Tobba aka Þórhalli, og Binna aka JB aka Johnny Blaze. Það var ekki túr af verri endanum og komið víða við á víðáttum Norður Þýskalands. Við komum okkur upp búðum í Lírubæ á Jungendhostel. Þar stýrði stúrinn náungi sem hélt því síðan fram að við hefðum verið með læti um nóttina, shaaaaaræt ...ef að opna dyr með lykli og fara á klósettið klukkan 2 um nóttina kallast læti þá vorum við sekir. Vorum að pæla í því að klaga í fólki sem vaknar klukkan 5 um nóttina og fer að sturta sig og pakka niður með látum. Þjóðverjar og ferhyrningar eiga ýmislegt sameiginlegt.

Skemmtanalífið kannað á fimmtudagskvöldið og auðvitað byrjað að fara á draumastaðinn ..... Bayerische Bierhaus mit Live music jeder abend. Lifandi tónlistin fólst auðvitað í mest elskuðu uppfinningu tuttugustu aldarinnar í Þriðja Ríkinu, nefnilega skemmtara. Ótrúleg græja. Maður er bara kominn með 20 manna Big Band sem spilar eðal Bayerska slagara í anda þeirra sem við hlustuðum á í bílnum á leiðinni niður til Lübeck. Lög eins og "So schön kann doch ein mann sein" og "Deina Taschenlampe brennt". Söngvarinn og stjórnandi stórsveitarinnar var svo eldri maður með grátt hár og stert ...... ubersvalur.

Tobbi fékk sér svínabóg og ég pantaði auðvitað Bæjerskan sláturplatta!!!!! Binni var chicken fyrsta kvöldið og lét sér nægja Cordon Bleu. Öllu hafaríinu var svo skolað niður með Paulaner. Eftir þrjá öllara þar var farið á röltið milli staða í gleðiborginni Lübeck, en þar sem það var fimmtudagur lokuðu allir staðir klukkan 1 svo við þurftum að snúa tilbaka á hótelið upp úr því.

Daginn eftir ákváðum við að halda til hafnarborgarinnar og menningarstaðarins Hamborgar. Það eru ekki nema 56 km á milli borganna, en þar sem við lentum í velþekktu fyrirbæri á þýskum hraðbrautum, Stau eða teppu, í um klukkutíma tók ferðin upp undir tvo tíma. Það sem bjargaði lífi okkar var náttúrulega eðal þýsk dægurtónlist sem iljaði okkur allan tímann. Annars fannst okkur Hamborg hálf gettóleg eitthvað þannig við fórum aftur Lübeck þar sem við vissum að nú færi eitthvað að gerast á diskótekunum sem voru lokuð kvöldið áður, nefnilega Body&Soul og Hüx. Við ákváðum að fá okkur aftur bæjerskan mat á Bayerische Bierhaus. Nokkrir Paulaner runnu ljúflega niður.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home