Samminn

28.5.07

Máli máli mál

Lét loks verða af því að mála hurðirnar í íbúðnni. Hafði í raun planað það frá upphafi, en ekki gert það fyrr en nú. Líka til að melta pælinguna. Nú eru hurðirnar í fagurdökkbrúnum eikarlit. Rétt eins og á alvöru herragarði. Inni í dæmi var að skipta um hurðarhúna líka. Kaupa svona burstastálshurðarhúna. Modernisma í gegn. En ég komst að því að það krefst þess að skipt sé um alla læsinguna, bæði í hurð og karmi ... leist nú ekkert á það, þannig að málningin verður að duga...

Framkvæmdagleði ríkir á B12!!

Íbúðin

Íbúðin mín er rétt við þessa tjörn, í raun rétt vinstra megin við þar sem myndin endar...

derhúfan

Rosalega sakna ég uppáhaldsderhúfunnar minnar sem ég gleymdi fyrir tæpu ári síðan, í lestinni frá Árósum til Köben ... sniff

Vonaðist hálfpartinn eftir að finna hana liggjandi í sætinu þegar ég tók lestina frá Köben til Árósa um daginn ... en nei ... einhver hafði tekið hana. Sennilega rökrétt, enda tæpt ár síðan eins og fyrr sagði. En maður getur alltaf látið sig dreyma ...

Styttist í Kiev

Það er farið að styttast töluvert í Kiev og rússneskunámskeiðið. Bara ein og hálf vika. Verð að viðurkenna að kallinn er farinn að hlakka soldið til.

Allt klappað og klárt meira og minna. Hringdi í Jústsjenko og skipaði honum að leysa deiluna við Janúkovits og hann rumpaði þessu af í morgun.

Alltaf jafn hressandi að kíkja á Google Earth og kíkja á hina fögru kommablokk þar sem ég er búinn að leigja mér íbúð í þrjár vikur. Óneitanlega hápunktur í evrópskum arkitektúr. En kosturinn er þó sá að íbúðin er mjög nálægt ströndinni í Obolon, og þar ku reyndar vera nektarströnd líka. Maður má því eiga von á miðaldra karlmönnum á sprellanum í góðum fíling þegar maður kíkir á herlegheitin.

Er að reyna að selja foreldrum mínum hugmyndina að lána mér vídeómyndavélina sína í ferðina. Taka þetta upp á svolítið markvissan hátt.

21.5.07

Árósar og Middelfart újee

Sit hér í stofunni hjá Mása í Árósum. Búinn að vera hérna í tvo daga og fer væntanlega til Middelfart í kvöld. Verð á námskeiði tvo næstu daga þar.

Ég kom seint til Árósa seint á laugardagskvöldið. Fluginu seinkaði um hálftíma sem varð til þess að ég náði ekki tíu-lestinni frá Köben, heldur varð ég að bíða til hálftólf. Allt lokað á Kastrup þegar við lentum svo ég tók Malmö-lestina inn á aðaljárnbrautastöð og fékk mér sveittan Big-Mac þar. Nokkrar gamlar og góðar minningar sem hrönnuðust upp við það. Ófá skipti sem maður hrökklaðist þangað inn undir lokin á góðu djammi. Ekki tók betra við, heldur tók gamall róni upp á því að fleygja farangurskerru og töskum út á lestarsporið í þann mund sem ICE-lestin renndi í hlaðið á brautarstöðina. Tuðaði mikið og reifst við starfsmenn. Hann hefur sennilega fengið að gista nóttina í fangageymslunum. Enn seinkaði mér við það, en þó ekki nema um tíu mínútur.

Kom til Árósa hálfþrjú um nóttina. Mása seinkaði líka þar sem hann var að hreinsa upp pókerborðin í lókal-spilavítinu. Við hentum farangrinum inn í íbúð og kíktum á dreggjar laugardagsdjammsins. Stóð stutt yfir og fórum upp í íbúð um kl. fimm.

Tókum nettan bíltúr til Silkeborg á sunnudaginn. Rúntuðum um hinar fögru sveitir Jótlands. Fátt betra en það. Kíktum niður á ströndina í Árósum eftir það. Ekkert verulegt sólbað, enda aðstaðan lokuð vegna viðgerða. Lágum þó í hægðum okkar á timburpalli mót sunnanáttinni, og náðum okkur í smá lit. Fyrsti liturinn sem skín á minn föla kropp þetta árið. Ágætis undirbúningur fyrir ströndina í Obolon í Kiev, sem er býður mín eftir ekkert allt of langan tíma.

Í kvöld tek ég lestina til Middelfart og skrái mig inn á hótelið sem ég mun gista á. Í fyrramálið hefst námskeiðið og stendur fram á dag.

Allt mjög hressandi. Indeed...